Guðrún Gunnars,Friðrik Ómar og Valgeir

Fór á tónleika í kveld í Bláu Kirkjunni á Seyðisf. með Guðrúnu Gunnars, Friðriki Ómar(Frómar)
og á flygilinn lék Valgeir Skagfjörð.

Raddir þeirra eiga einstaklega vel saman og voru þessir tónleikar hrein snilld...Guðrún og Friðrik sögðu létta brandara á milli laga en eins og þið vitið er Guðrún einnig hláturmildasta kona landsins þannig að áður en maður vissi voru fúlustu andlitin á tónleikunum farin að ljóma.....Þetta er þessi x factor....

Troðfull kirkja og glaðir gestir, gerist ekki betra.

Á eftir fengum við okkur kaffi á Skaftfelli og rifjuðum upp gamlar sögur en ég hef verið það heppinn í gegnum tíðina að spila með öllu þessu fólki.

Sérstaklega var hlegið af Evróvisíón för okkar Guðrúnar árið 1993 en þá söng Ingibjörg Stefáns lagið þá veistu svarið.
Keppnin var haldin það ár á Írlandi og þótti Írum nóg um Kaupæði Guðrúnar(fötin voru svo ódýr).


Fúsi fiskur


Fiskarnir í Heiðarvatni

Ef þú skoðar kort af Íslandi og skoðar vel hægri helminginn af því, já þá svona rétt ofan við miðju alveg lengst, lengst til hægri finnur þú Seyðisfjörð.

Fyrir ofan djúpan og lygnan fjörðinn kúrir Fjarðarheiði hátt uppi á fjalli.

En þar hefst einmitt sagan af honum Fúsa fiski og fjölskyldunni hans.

Í vatni sem nefnist Heiðarvatn.

Áin sem rennur úr Heiðarvatni heitir Fjarðará og í henni eru óteljandi fallegir fossar, sumir litlir en aðrir stórir.

Í Heiðarvatni eru fiskar sem fáir hafa séð og það eina sem sést til þeirra er á sumrin er þeir vaka og litlar loftbólur myndast um allt vatnið.

Er það helst á kyrrum og björtum sumarnóttum sem þeir láta mest vita af sér og stundum er eins og allt vatnið sjóði, svo mikið líf og fjör er þá hjá þeim.

Þessir fiskar lifa einir í Heiðarvatni og kynnast aldrei öðrum fiskum.

En við skulum nú kynnast honum Fúsa og fjölskyldu hans, þau eru einmitt fiskar og búa í Heiðarvatninu.

Fúsi er frekar lítill og horaður fiskur sem heldur sig yfirleitt rétt við gömlu stífluna þar sem Fjarðará myndast.

Í fjölskyldu Fúsa eru mamma hans Fríða, pabbi hans Silli, auk Sælu systur hans sem er 3 ára.

Fúsi er ósköp venjulegur fiskur sem hefur synt um í vatninu alla sína ævi í leit að ævintýrum sem aldrei finnast og ef þau finnast þá eru þau ekki nógu spennandi.

Mesta fjörið er á sumrin þegar ísinn á vatninu er loksins farinn, þá syndir hann um allt vatnið og hittir félagana sína.

Á sumrin kemur líka mikið af fólki og teygir úr sér eða gengur í kringum vatnið.

En það getur verið mjög erfitt fyrir litla fiska að lifa á veturna í Heiðarvatni.

Þegar snjór og ís liggur yfir öllu vatninu er erfitt að komast ferða sinna undir ísnum, því vatnið er grunnt og botnfrís á nokkrum stöðum.

Fúsi hefur heyrt að neðarlega í Fjarðará búi aðrir fiskar sem séu frændur hans þeir kallast víst silungar og laxar og séu mun stærri og fríðari en fiskarnir í Heiðarvatni.

Hann á nú bágt með að trúa þessum sögum en hefur alla tíð verið forvitinn að vita hvort þetta geti virkilega verið satt.

Í gegnum tíðina hafa nokkrir fiskar úr Heiðarvatni farið í könnunarleiðangra úr vatninu og niður í ána en aldrei komið til baka, þannig að enginn hefur getað sannað þá sögusögn.

Fúsi fer í ferðalag:

Það var um miðjan júní að Fúsi tekur eftir því að gamla stíflan í vatninu er greinilega eitthvað að gefa sig.

Stíflan er úr timbri og hefur efsta borðið í stíflunni greinilega brotnað.

Vatnið flæðir yfir stífluna og Fúsi tautar við sjálfan sig:

“Nú er auðvelt að komast niður ána og heimsækja þessa frændur mína”.

Án þess að gera sér grein fyrir hættunum sem bíða hans syndir Fúsi af fullum krafti og lætur sig fljóta hátt yfir stífluna.

Krafturinn í straumnum er gífurlega mikill og hann veltist fram og til baka á ógnar krafti.

“Úff, hjálp, úrrrrg”, heyrist í honum.

Hann fer yfir flúðir og litla fossa, í gegnum ræsi undir veg og steypist niður stóran foss sem heitir Gljúfurfoss,
“úff hjálp” hugsar hann en um leið hægist á straumnum.

“Nú hlýt ég að vera kominn á slóðir frænda minna”, hugsar Fúsi.

Hann syndir fram og til baka um ána en sér enga aðra fiska.
“Hvar eru allir, halló, halló! Þarf ég kannski að synda neðar í ána?”

Rétt fyrir neðan eru fleiri fossar og Fúsi lætur sig hafa það að hendast fram af þeim á ógnarhraða.

Systrafossar, Gufufoss og loks fossinn í Fjarðarseli.

Þetta eru sko ekki neinir smá fossar og þetta reynir mikið á Fúsa.

Eftir loka flugferðina niður Fjarðarselsfoss er hann nær dauða en lífi en nær að synda að bakkanum þar sem er lygnt og þar hvílir hann sig.

Hann virðist vera ómeiddur en hefur aldrei á ævinni verið svona þreyttur áður og ákveður að leggja sig aðeins.

Eftir að hafa hvílt sig í dágóða stund opnar hann augun og fer að skima í kringum sig.

Í fyrstu sér hann ekkert markvert en sér svo að undir fossinum eru margir, margir risastórir fiskar.

Að minnsta kosti finnst Fúsa þeir vera alveg rosalega stórir.

“Halló, ehe, ehe,” hann ræskir sig, “halló, stóru fiskar, ég er víst frændi ykkar, ég heiti Fúsi og á heima í vatninu hérna lengst uppi á heiðinni”.

Stóru fiskarnir yrða fyrst ekkert á hann og Fúsi heldur að þeir hafi ekki séð hann. Þá syndir stór og mikill fiskur hratt að honum og skoðar hann vel og vandlega.

“Hallalalló, ég meina halló” segir Fúsi og finnst hann vera hálf-kjánalegur.

Stóri fiskurinn skellihlær en segir svo; “Þú frændi okkar? Það getur ekki verið, ég hef aldrei á ævi minni séð jafn lítinn og aumingjalegan titt!”.

“Ég er enginn tittur”, hrópar Fúsi en þá springa allir hinir fiskarnir úr hlátri.

Stóri fiskurinn hlær allra fiska hæst en segir svo: “Jæja þá og ég verð nú að segja að mér líkar vel hvað þú ert borubrattur.

Ég heiti Valdi og það er best að þú haldir þig nálægt mér. Hér eru nefnilega margar hættur fyrir fiska eins og okkur.

Sérstaklega fyrir svona titt, uhu, ég meina smáfisk eins og þig”.

Fúsi segir Valda frá ferðalagi sínu niður ána og Valdi áttar sig á að það er mikið spunnið í þennan titt.

Þegar Fúsi hefur lokið við ferðasögu sína er komið langt fram á nótt og þeir báðir orðnir mjög þreyttir.

Valdi syndir með Fúsa undir árbakkann þar sem þeir fara að sofa.

Fjarðará:
Daginn eftir vaknar Fúsi við að Valdi ýtir við honum og segir: “Svefnpurka, nú er kominn tími til að sýna þér betur ána og kannski eins gott að sýna þér hana sem fyrst.
Það er nefnilega mikið um hættur hér, eins og veiðimenn sem reyna að gabba okkur með platflugum og ánamökum”.

“Einnig er þó nokkuð um að minkar syndi hér um ána og reyni að borða okkur”.

“Eru hættur hér?” spyr Fúsi, “ég hélt að fyrst þið væruð svona stórir gæti ekkert komið fyrir ykkur”.

“Það eru alltaf hættur í lífinu” segir Valdi, “það er bara að kunna að bregðast við þeim og vera vel vakandi”.

Fúsi syndir upp og niður ána næstu daga en uppgötvar fljótt að það vantar eitthvað, þetta er allt eitthvað svo framandi.

þrátt fyrir að Valdi geri allt til að fá Fúsa til að brosa þá verður hann bara sorgmæddari og sorgmæddari eftir því sem dagarnir líða.

Það er sól í heiði og blankalogn þegar systkinin Elísa og Elmar sem eru á ferð um landið fara á sílaveiðar í Fjarðará.

Þau nota háf sem pabbi þeirra hafði keypt handa þeim fyrir ferðalagið.

Sílaveiðarnar gengu nú ekkert meiriháttar vel þennan dag en þau ætluðu sér ekki að gefast upp.

Á sama tíma heyrir Fúsi eitthvað þrusk fyrir ofan sig þar sem hann liggur undir árbakkanum.
Þar sem hann er, eins og þið vitið, mjög forvitinn fiskur, gleymir hann öllum varnarorðum Valda og ákveður að kíkja undan árbakkanum.

Allt í einu finnur hann að hann flækist í einhverju og svífur upp í loftið og svo er hann aftur kominn ofan í vatn nema það er allt rautt í kringum hann.

Hvað hefur komið fyrir?

Þau Elmar og Elísa höfðu veitt Fúsa í háfinn sinn og sett hann í rauða fötu sem þau höfðu meðferðis.

Fúsi varð dauðhræddur í fötunni og alveg ringlaður en þau Elmar og Elísa voru himinlifandi að hafa loks náð sér í fisk og var alveg sama þó hann væri nú hálf-ræfilslegur.

Allt í einu heyrðist í mömmu barnanna kalla til þeirra og þau hlupu stolt og ánægð með Fúsa í fötunni til hennar og pabba þeirra sem beið eftir þeim við fjölskyldubílinn.

“Nei, en hvað þetta er lítill og skrýtinn fiskur”, sagði pabbi þeirra: “Hann er ekkert skrýtinn”, sagði Elísa, “Og við ætlum að taka hann með okkur heim og hafa hann sem gæludýr”.

Þrátt fyrir að foreldrar þeirra reyndu að tala um fyrir þeim og benda þeim á að þau ættu eftir að aka í marga klukkutíma og það væri nú ekki gott að vera með fötu fulla að vatni í bílnum voru þau staðráðin í að fara með Fúsa heim.

Kemst Fúsi heim?

Fjölskyldan var varla kominn af stað þegar vatnið byrjaði að gusast upp úr fötunni og þegar komið var upp á Fjarðarheiði var vægast sagt orðið lítið vatn í henni.

Pabbi barnanna ákvað að stöðva bílinn við Heiðarvatn og gera lokatilraun til þess að fá börnin til að sleppa Fúsa.

Börnin voru í fyrstu ekki á því að samþykkja það en eftir að þau sáu eitthvað sem líktist brosi á fiskinum þegar hann sá vatnið, var ákveðið að sleppa honum í það.

Það var sprækur fiskur sem synti glaður frá vatnsbakkanum og veifaði börnunum með uggunum.

Fúsi var varla búinn að synda nema örfáa metra út í vatnið þegar hann rakst á systur sína, hana Sælu sem varð alveg ær af gleði við að sjá bróðir sinn aftur.

Hún sagði honum að foreldrar hans væru búin að vera mjög sorgmædd.

En þau hefðu aldrei gefist upp á að leita að honum.

Það þarf ekki að lýsa gleðinni sem varð þegar Fúsi hitti síðan foreldra sína skömmu seinna.

Um kvöldið var svo stór og glaðlegur hópur lítilla og skrýtinna fiska sem hlustuðu agndofa á ævintýrilega frásögn Fúsa af ferðalagi sínu niður ána og kynni sín af stóru fiskunum í Fjarðará.
Hann endaði á orðunum: “Já, kæru félagar, ég komst að því þrátt fyrir allt, að heima er best”.

Einar Bragi Bragason 2006


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Sólpallllllllllurinn Klár

og þá vantar bara sólina, fékk góða hjálp frá Arnari enda er ég þekktur þumalputti, að vísu var ég að hjálpa honum smá í morgun við að mála.
En kona góð nú er loksins til......
Elísa Björt dóttir okkar er í sumarbúðum en kemur á morgun jibbý húsið er hálf tómt án hennar........ætla í langt bað í kvöld með bók....finnst best að lesa í baði.
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Tina Turner í Neskaupstað

Næstum því ok ...Tina Turner Íslands Miss Sigga Beinteins verður þar á Föstudagskv. um versló...verð að spila þar í Tinu Turner Showi og var að renna yfir lögin áðan, djöf verður gaman að spila þetta stöff. rokk og ról í hæsta gæðaflokki.
Afhverju í ands. er ekki fyrir löngu búið að fá Tinu til landsins ,hef sjálfur farið á tónleika með henni í Danmörku og eins og sagt er ..hún rokkar.
Annars er ég líka að spila með öðlingunum í hljómsv. Von á föstudag á Grundarfirði (langt síðan ég hef komið þangað) og svo aftur með þeim og hinum eina sanna Bó á laugardeginum um versló á Akureyri....
Annars er allt gott að frétta af disknum okkar Hákonar, hann virðist falla vel í kramið hjá fólki(sjúkket) og selst vel...það komu of fá eintök til landsins í siðustu viku en ný sending ætti að koma á morgun eða hinn.

Gummi Gísla Sú Ellen maður að koma með plötu

Var að hlusta á 2 ný lög með Gumma Gísla Sú Ellen manni með meiru á blogginu hans og lofa lögin góðu fyrir komandi plötu...skora á alla að kíkja á það....Til lukku elsku Gummi minn(ok væmið)...
Bloggið hans er á vinalistanum mínum (að sjálfsögðu)

Lunga nótt 2

Jæja þetta fór allt frekar vel enda góð gæsla hjá Björgunarsveitum,foreldrum og lögreglu, en bærinn er i rúst, brotin gler og drasl út um allt.það er bjórdósaslóði yfir Fjarðarheiði:(.
En það sem mér finnst mest leiðinlegt er hversu mikil unglingadrykkja er í gangi og það versta er að maður er að vera gegnsósa af þessu ....því öllum virðist vera sama..hva þetta er ekkert mál nokkrir bjórar ,hvaða væl er þetta í þér heyrir maður frá unglingum og það sem verra er líka frá foreldrum.
Ég hef heyrt að á sama tíma og við bönnum reykingar út um allt og leyfum vændi þá séum við Íslendingar eina þjóðin í heiminum sem þurfi að tvöfalda lögregluvaktir um helgar vegna ofrykkju;(...ekki gott.
En Lunga hátíðin er snilldar hátíð sem er alltaf að verða betri og betri.
kl er 6.47 þegar þetta er skrifa og ennþá mikið líf á Tjaldstæði bæjarins.


Lunga Nótt og sólin komin upp

KL er 05.03 þegar þetta er skrifað og 17 stiga hiti Lunga helgarnótt fer að ljúka og hafa krakkarnir í heild verið til fyrirmyndar,nokkrir smá pústrar en annars rólegt,annars er þetta yfirleitt lítill hópur fólks sem skemmir fyrir svona magnaðri hátíð ,en það er ekki laust fyrir að maður öfundi ung pör sem rölta hér í rólegheitum eftir bakkanum við spegilslétt lónið ungt,ástfangið og reiðubúið að taka á móti alvöru lífsins með bros á vör.... amk finnst þeim það örugglega á þessari stundu.....usss ekki skemma andartakið fyrir þeim.

Konur ættu að borga lægri Bifreiðatryggingar

Vinn sem lögga á sumrin og eftir að hafa lesið þetta þá fór ég að spá....og viti menn....jú það er rétt...Ég þarf að hafa miklu meiri afskipti af kk ökumönnum en kvk...mér finnst ekkert gott að viðurkenna þetta en sorry guys....Þetta er staðreynd.
mbl.is „Konur eru fyrirmyndar bifhjólaökumenn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimasíða Hökkuð

Nú hefur heimasíða Lunga, lunga.is verið hökkuð og er talið að tjónið sé um 1 milljón.

Hakkarar skammist ykkar.Frown


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Einar Bragi Bragason

Höfundur

Einar Bragi Bragason.
Einar Bragi Bragason.

Hef verið atvinnuhljóðfæraleikari í 100 ár(aðeins ýkt) og er skólastjóri Tónlistarskóla Seyðisfjarðar.

Netf.saxi@centrum.is sími 8974265

Tónlistarspilari

- like pantomime EBB master

Bloggvinir

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Áramót
  • ...927_6924913
  • picture 4 975462.png
  • picture 4 926643.png
  • ...posturrr

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband